Um Langholtsskóla

Langholtsskóli var stofnaður haustið 1952 og hefur því starfað í rúma sjö áratugi. Skólinn er heildstæður fyrir nemendur í 1.- 10. bekk. Hann er einn fjölmennasti skóli borgarinnar með ríflega 700 nemendur. Starfsmenn Langholtsskóla eru rétt um 100 talsins. Húsnæði skólans hefur verið mikið endurnýjað og unnið er að endurbótum á hluta skólahúsnæðisins.

Námssamfélag nemenda, starfsfólks og foreldra

Langholtsskóli er námssamfélag þar sem nemendur og starfsfólk fá tækifæri til að læra og þroskast. Hann er vettvangur fyrir framsæknar hugmyndir og nýbreytnistarf. Litið er á nemendur, starfsfólk og foreldra sem samstarfshóp. Áhersla er lögð á samstarf innan skólasamfélagsins: samstarf starfsfólks og nemenda; samstarf nemenda innbyrðis og samstarf heimilis og skóla. 

Teiknuð mynd af barni, kennara og foreldri sem sitja saman við borð.

Áherslur í Langholtsskóla

Kappkostað er að búa skólastarfinu góða umgjörð og að aðstæður og búnaður skólans séu ávallt til fyrirmyndar. Skólinn starfar í sátt við umhverfi sitt og grenndarsamfélag. 

Áherslur skólans taka mið af stefnumiðum skóla- og frístundasviðs í menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030, Látum draumana rætast. Framtíðarsýn hennar er: 

„Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

 

Í Langholtsskóla leggjum við auk þess áherslu á eftirfarandi: 

  • Skóli fyrir alla - árangur á öllum sviðum 
  • Teymiskennsla – kennarar bera sameiginlega ábyrgð á árgöngum 
  • Skapandi skólastarf: Fjölbreytni í viðfangsefnum og kennsluháttum, val í öllum árgöngum, upplýsingatækni og margmiðlun í öllu námi, fjölmenningarleg verkefni. 
  • Þróun kennsluhátta í átt að hæfnimiðuðu námi
  • Vellíðan – jákvæð samskipti – nemendalýðræði - jafnrétti
  • Fræðsla og forvarnir - Olweusarverkefni gegn einelti 
  • Öflugt samstarf heimila og skóla
  • Heilsueflingu

Jákvæður skólabragur

Við í Langholtsskóla höfum miklar væntingar fyrir hönd nemenda og gerum kröfur um ástundun, árangur og góða framkomu. Við leitumst við að koma til móts við nemendur með fjölbreyttum kennsluháttum og vali á viðfangsefnum. Um leið leggjum við áherslu á að skapa jákvæðan skólabrag þar sem öllum líður vel. Einkunnarorð skólans, virðing – vellíðan – skapandi skólastarf, endurspegla meginstefnu Langholtsskóla.

Teikning af Fjólu fagna með öðrum krökkum