Stoðþjónusta

Stefna Reykjavíkurborgar um sérkennslu og stuðning hefur skóla án aðgreiningar að megin leiðarljósi. Í því felst að skólinn veiti öllum nemendum sínum þjónustu fötluðum jafnt sem ófötluðum. Kennaranum er ætlað að aðlaga kennslu sína að nemendahópnum og þarf því að beita mismunandi kennsluaðferðum og vera með mismunandi viðfangsefni fyrir nemendur sína.
Heilsugæsla
Skólaheilsugæsla sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta.
Náms- og starfsráðgjöf
Námsráðgjafi við skólann veitir nemendum persónulegan og félagslegan stuðning í námi.
Menntun fyrir alla
Í grunnskólum Reykjavíkur er sérhverju barni mætt í námi óháð atgervi þess og stöðu.
Stoðþjónusta í Langholtsskóla
Helstu hlutverk stoðþjónustu er að styðja við nemendur sem þurfa stuðning á einn eða annan hátt. Þessi stuðningur getur verið í ýmsu formi innan og utan skóla. Sem dæmi má nefna sérkennsla, stuðningur fagfólks innan og utan skóla, tilvísanir til sérfræðinga, regluleg viðtöl við nemendur og foreldra. Sérstakur stuðningur við nemendur getur verið:
• Einstaklingsáætlanir
• Viðtöl, leiðsögn, ráðgjöf
• Mat og greining á námsfærni
• Stuðningur í námsveri
Sérfræðiþjónusta
Sérfræðiþjónusta Langholtsskóla er veitt á Norðurmiðstöð. Þar veita tvær deildir, skóla- og frístundadeild og deild barna- og fjölskyldna, ráðgjöf, stuðning og viðtöl. Þjónustan nær bæði til nemenda sem og starfsmanna skóla. Fulltrúar deildanna sitja nemendaverndarráðs- og lausnateymisfundi þar sem tilvísunum og beiðnum um aðstoð er forgangsraðað. Starfsmenn skóla og foreldrar geta leitað eftir aðstoð Norðurmiðstöðvar með formlegri beiðni í gegnum mínar síður á vef Reykjavíkurborgar. Áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og að bregðast við áður en vandi verður umfangsmikill. Mikilvægt er að foreldrar hafi samband við skóla sem fyrst ef þeir hafa áhyggjur af velferð barna sinna. Skóla- og frístundaþjónusta í Norðurmiðstöð veitir skólanum margskonar aðstoð sérfræðinga. Þar starfa meðal annarra kennsluráðgjafar, hegðunarráðgjafar og talmeinafræðingur. Starfsfólk skóla- og frístundaþjónustu situr fundi lausnateymis og kemur að úrlausn mála og stuðningi við nemendur og starfsmenn. Þá veitir starfsfólk Norðurmiðstöðvar starfsfólki ráðgjöf um kennsluhætti og skólaþróun.
Sálfræðingur skólans hefur aðsetur á Norðurmiðstöð. Beiðnir um aðkomu sálfræðings fara í gegnum nemendaverndarráð sem fylgir þeim eftir eins og kostur er.
Einstaklingsnámskrá
Einstaklingsnámskrá er gerð fyrir nemendur ef þörf þykir á að gera verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, og/eða kennsluháttum miðað við jafnaldra. Sérkennarar, þroskaþjálfar og umsjónarkennarar fara yfir stöðu nemenda og vinna síðan áætlun í samráði við foreldra og nemendur. Einstaklingsnámskrá er gerð með hliðsjón af bekkjarnámskrá.
Farsæld barna
Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi. Markmiðið er að tryggja að börn og forsjáraðilar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum.
Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla. Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana.
Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengiliði farsældar:
Tengiliðir í Langholtsskóla eru: Brynja Dröfn Þórarinsdóttir og Sesselja Auður Eyjólfsdóttir